Vellauðug áströlsk kona, sem lést á síðasta ári 81 árs að aldri, arfleiddi börn sín og fyrrverandi eiginmann að 1,5 áströlskum dölum hverju, jafnvirði um 180 króna og kallaði þetta fé „blóðpeninga" í erfðaskránni. Eignir konunnar eru metnar á 417 milljónir króna.
Konan, sem hét Valmai Roche, var um tíma borgarstjórafrú í Adelaide í Ástralíu. Í erfðaskránni arfleiddi hún börn sín og fyrrum eiginmann að „30 silfurpeningum," og sagði að það væru blóðpeningar sem greiða ætti Júdasi. Afganginn fær kaþólska góðgerðarstofnunin Southern Cross, að sögn ástralskra fjölmiðla.
Dætur konunnar hafa höfðað mál til ógildingar erfðaskránni og halda því fram í málsskjölum að móðir þeirra hafi verið haldin elliglöpum. Í erfðaskránni segir Valmai Roche, að dætur hennar og fyrrum eiginmaður hafi tekið þátt í samsæri um að ráða Dorothy Maud Haber, móður Roche, af dögum.
Samkvæmt erfðaskránni fá þrjár dætur konunnar skipt á milli sín skartgripum móður sinnar en þó því aðeins að þær geti svarað rétt spurningum um dagbók, sem Roche hélt á tímabilinu janúar 1974 til október 1981 en þá er erfðaskráin dagsett.