Stjórnvöld í Brasilíu hvöttu í dag landsmenn til að hreyfa sig meira til að bægja frá langvinnum sjúkdómum. Einkum voru þeir hvattir til að lifa fjörugu kynlífi.
„Fólk þarf að vera virkt. Það gengur ekki, að eina líkamsræktin sé að horfa á knattspyrnuleik um helgar. Fullorðið fólk verður að hreyfa sig, dansa og lifa öruggu kynlífi," sagði José Gomes Temporão, heilbrigðisráðherra Brasilíu þegar hann hleypti átaki gegn háum blóðþrýstingi af stokkunum. Talið er að fjórðungur Brasilíumanna, sem eru 190 milljónir talsins, þjáist af þeim kvilla.
Eftir að hafa flutt ávarp sitt bætti hann um betur þegar hann ræddi við fréttamenn á eftir.
„Ég er ekki að grínast. Þetta er alvarlegt. Kynlíf, með öruggum vörnum, er hluti af því að hreyfa sig reglulega. Dansa, hafa kynmök, passa upp á þyngdina, hreyfa sig heldur blóðþrýstingnum niðri."
Temporão sagðist telja að yrði ekkert að gert myndi stór hluti þjóðarinnar þjást af háþrýstingu, sykursýki og háu kólesteróli eftir 20 ár.