Breski Verkamannaflokkurinn hefur vikið frambjóðanda í væntanlegum þingkosningum í maí úr flokknum eftir að hann varð uppvís að því að gorta af kynþokka sínum og getu á bloggsíðu.
Frambjóðandinn, sem heitir John Cowan og er 35 ára, var einnig sakaður um að segja, að hann yrði ekki ánægður ef börn hans færu á stefnumót með múslimum.
Um kynlíf sitt sagði Cowan: „Hvers vegna að láta eina konu duga? Ég vildi helst hafa eina konu fyrir hvern dag vikunnar."
Fréttir af yfirlýsingum Cowans birtust í blaðinu Sunday Telegraph í gær og í dag var tilkynnt, að honum hefði verið vikið úr Verkamannaflokknum tímabundið. Verið væri að tryggja að hann gæti ekki boðið sig fram í embætti fyrir flokkinn í framtíðinni og hugsanlega yrði honum vikið varanlega úr flokknum.
Cowan
var frambjóðandi í South East Cambridgeshire á austurhluta Englands þar sem Íhaldsflokkurinn þykir öruggur með þingsæti.
„Ég skrifa það sem mér finnst," sagði Cowan við Sunday Telegraph. „Ég tel að þetta sýni heiðarleika sem frambjóðendur búa sjaldan yfir."
Nýlega var frambjóðanda Verkamannaflokksins í Skotlandi vikið tímabundið úr flokknum eftir að hann skrifaði óhróður um stjórnmálaleiðtoga á Twitter.