Leifar af örkinni hans Nóa eru sagðar hafa fundist í nærri 3.700 metra hæð á fjalli í Tyrklandi, að því er fullyrt var í gær. Hópur kínverskra og tyrkneskra evangelískra könnuða segir að kolefnismælingar á leifum sem fundust á Ararat fjalli séu 4.800 ára gamlar, eða frá þeim tíma sem örkin er sögð hafa verið á floti.
Fréttavefur Daily Mail greinir frá hinum meinta fornleifafundi og sýnir myndir innan úr leifum arkarinnar. Það þykir draga nokkuð úr trúverðugleika fundarins að leiðangursmenn gáfu ekki upp staðsetningu né heldur sýndu þeir myndir af staðnum þar sem fornleifarnar eiga að liggja.
Leitin að leifum af örkinni hans Nóa hefur verið kristnum mönnum, gyðingum og múslimum hugleikin öldum saman. Þrátt fyrir ýmsar fullyrðingar þar um hafa vísindalegar sannanir um tilurð arkarinnar aldrei fundist.
Kínversku leiðangursmennirnir eru frá Hong Kong. Þeir neita að gefa upp nákvæma staðsetningu fornleifafundarins fyrr en tyrknesk yfirvöld lýsa því yfir fornleifavernd á staðnum.
Leiðangurshópurinn telur 15 manns. Þeir greindu frá fundi sínum í gær og höfðu með sér viðarleifar og kaðalbút sem þeir telja að hafi verið notaður til að tjóðra með dýr.
„Það er ekki 100 prósent öruggt að þetta sé örkin hans Nóa, en við teljum 99,9% öruggt að svo sé,“ sagði Yeung Wing-Cheung, heimildamyndagerðarmaður og félagi í hópnum frá Noah's Ark Ministries International í Hong Kong.
Hann sagði að í mannvirkinu séu margar vistarverur, í sumum þeirra eru bjálkar, og er talið að þar hafi dýr verið geymd. Fyrstu prófanir benda til þess að viðurinn sé einhver tekund kýprusviðar en í Biblíunni segir að örkin hafi verið smíðuð úr góferviði.
Félagar í kínverska leiðangurshópnum og tyrkneskir embættismenn tóku þátt í fréttamannafundi á vefsíðu evangelíska hópsins. Þar var mikið gert úr mikilvægi uppgötvunarinnar.
Viðbrögð Nicholas Purcell, kennara í fornaldarsögu við háskólann í Oxford, við fullyrðingum hópsins voru dræm. Hann sagði slíkar sögur skjóta upp kollinum reglulega og þetta væri venjulega „bull“.