Geyma föt í bakaraofninum

Húsnæðisverð í New York er með því hæsta sem gerist í heiminum. Milljónir búa í borginni en plássið er víða takmarkað. Því hafa sumir brugðið upp á ansi nýstárlegar aðferðir við að geyma föt og aðra muni. Með því að nota eldhússkápa og bakaraofna.

„Staðan er einfaldlega þessi. Ég á meira af fatnaði en ég hef af plássi,“ segir hönnuðurinn og bloggarinn Zandlie Blay.

Neyðin kennir naktri konu að spinna eða í þessu tilviki buxnaskjóna að geyma öll fötin sín. Blay varð því að forgangsraða og í hennar tilviki voru mörg eldhúsáhöld kvödd í nafni tískunnar. Þar kemur ofninn til sögunnar.

„Ég elda ekki, en ég á föt. Því er alveg eins gott að geyma þau inni í eldhúsinu. Og til að það gæti orðið að veruleika þá varð ég að losa mig við ísskápinn minn. Þá bað ég húsvörðinn um að taka ofninn úr sambandi, og svo varð ég bara að hætta að nota vaskinn,“ segir Blay í viðtali við Reuters.

Þetta eru mjög róttækar breytingar í hugum margra, en Blay er ekki eini New York búinn sem hefur þurft að grípa til slíkra ráða.

Jim Caruso hefur einnig breytt bakaraofninum sínum í fataskáp. „Ég elda alls ekki, sem er eitthvað sem ég tel að sé ekki óvanalegt hér í New York. Einn daginn horfði ég á ofninn og hugsaði með mér: Þetta er sniðugt. Þarna eru hillur. Þá er ljós þarna inni, og það er hægt að taka hillurnar út og setja þær aftur inn. Hvað myndi gerast ef ég myndi setja peysurnar þangað inn?“ Og þarna hafa þær verið. Þetta er hin fullkomna lausn,“ segir Caruso.

Meðalverð á húsnæði í New York er um 130 milljónir króna, eða um 1 milljón dollara. Leiga á stúdíóíbúð kostar til að mynda á bilinu 1300-3000 dalir (um 167.000 til 390.000 kr.) á mánuði.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar