Afmælisfögnuður 21 árs Bandaríkjamanns breyttist í harmleik eftir að hann tók áskorun um að drekka 21 staup af áfengi í röð í tilefni dagsins. Flytja þurfti manninn á sjúkrahús þar sem hann lést degi síðar af völdum áfengiseitrunar.
Maðurinn var staddur á öldurhúsi í bandaríska bænum Sugar Creek ásamt fjölskyldu og vinum snemma í mánuðinum. Enn er til rannsóknar hver skoraði á hann að drekka staupin 21 en víst er að enginn ráðlagði honum frá því. Jafnframt á eftir að leiða með óyggjandi hætti í ljós hvaða áfengistegund maðurinn drakk, en venjulega er um viskí að ræða.
Að því er lögregluyfirvöld í Sugar Creek segja, er um að ræða sið sem rutt hefur sér til rúms á undanförnum árum, sér í lagi á háskólasvæðum í Bandaríkjunum. Um nokkurs konar manndómsvígslu er að ræða en ljóst að hún getur endað með ósköpum.