Sextíu og tveggja ára gömul búlgörsk kona eignaðist nýverið sín fyrstu börn. Hún er þar með orðin elsta nýbakaða móðirin í landinu. Hún eignaðist tvíburastúlkur í kjölfar uppsetningar fósturvísa.
Krasimira Dimitrova, sem er sálfræðingur búsett í Ruse, eignaðist tvær stúlkur 5. maí sl. Hvor þeirra vó undir einu kílói.
Hún segir í viðtali við fjölmiðla í Búlgaríu að hún hafi í fyrstu orðið ólétt af þríburum. Læknarnir hafi hins vegar ákveðið að fjarlægja einn af fósturvísunum þremur.
„Aldur var mér engin fyrirstaða [...] Ég vildi svo mikið eignast börn,“ sagði hún.
Dimitrova, sem mun brátt fara á eftirlaun, segist hafa ákveðið að eignast börn með þessum hætti eftir að yfirvöld meinuðu henni að ættleiða sökum aldurs.
„Ég vil ekki velta framtíðinni of mikið fyrir mér. Ég von að börnunum líði vel,“ segir hún.
Læknirinn Georgy Hubchev, sem tók á móti börnunum, segir að þetta sé aðeins í annað sinn í heiminum sem uppsetning fósturvísa í konu, sem er komin yfir sextugt, tekst.
Elsta móðir heims samkvæmt skráningu er sjötug indversk kona, sem eignaðist tvíbura árið 2008.