Yfir 20.000 bréf hafa fundist í bílskúr bréfbera í Fíladelfíu í Bandaríkjunum. Sum bréfanna eru yfir 10 ára gömul. Málið kom í ljós í apríl sl. þegar yfirmenn bréfberans ákváðu að heimsækja hann þegar hann hafði ekki látið sjá sig í vinnunni í nokkra daga.
Bandaríska alríkislögreglan segir að bréfin hafi fyllt þrjá póstburðarbíla. Lögreglan segir jafnframt að sum bréfanna séu frá árinu 1997.
Bréfberinn er ófundinn, en það varðar við lög að stela eða koma pósti ekki til skila.
Fjölmargar ávísanir, reikningar og opinber bréf voru á meðal þess sem fannst á heimili mannsins. Búið er að dreifa hluta þeirra til íbúa í Bustleton í Fíladelfíu, sem urðu steinhissa.
„Ég fékk bréf frá árinu 2007 í dag,“ sagði Kevin Carpenter við ABC fréttastöðina. „Launaseðlar, og annað sem ég þurfti. Hluti frá tryggingastofnun og skattinum.“
Carpenter segist hafa spurt bréfberann út í þetta. „Hann sagði ekki hafa séð þetta en hann lofaði að hringja í mig um leið og hann sæi póstinn.“