Frönsk stúlka, Zoe Renault, hefur höfðað mál á hendur bílaframleiðandanum Renault vegna nýs hugmyndabíls, Zoe Renault. Um 30.000 franskar stúlkur heita þessu nafni en frú Renault óttast að líf hennar verði að martröð fari svo að bíllinn fari í fjöldaframleiðslu. Stríðnisglósum muni rigna yfir hana.
„Ég gæti ekki umborið að heyra „Zoe er biluð“ eða „Við þurfum að fara með Zoe í viðgerð““ var haft eftir stúlkunni í franska dagblaðinu Le Parisien, í lauslegri þýðingu á íslensku.
Lögmaður frú Renault, David Koubbi, hefur skrifað forstjóra Renault, Carlos Ghosn, bréf þar sem þess er krafist að annað nafn verði fundið á hugmyndabílinn Zoe Renault, rafbíl sem ekki mun losa neinar gróðurhúsalofttegundir í andrúmsloftið.
Fram kom í yfirlýsingu frá Renault að fyrirtækið hefði skilning á áhyggjum stúlkunnar. Það lagði hins vegar áherslu á að nafnið hefði aðeins verið gefið hugmyndabíl og að framhaldið væri því óljóst á þessu stigi.