Kona sem sofnaði í kvöldflugi á milli Washington og Fíladelfíu, og vaknaði ekki fyrr en um fjórum klukkutímum eftir að vélin var lent, hefur höfðað mál á hendur United Airlines. Hún segist ekki hafa komist út úr vélinni.
Ginger McGuire var steinsofandi þegar vélin lenti á alþjóðaflugvellinum í Fíladelfíu klukkan 00:27. Hún rumskaði ekki þegar farþegarnir yfirgáfu vélina, sem var 50 sæta.
Starfsmenn, sem voru byrjaðir að þrífa vélina, vöktu konuna um fjórum klukkustundum seinna. Henni var hins vegar haldið inni í vélinni á meðan alríkislögreglumenn gengu úr skugga um að hún væri ekki hryðjuverkamaður.
Fram kemur í kærunni að McGuire hafi verið haldið inni í vélinni með ólögmætum hætti og að þetta hafi valdið henni sálrænum kvölum. Þá sakar hún flugfélagið um vanrækslu.
Talsmaður United Airlines segir flugfélagið vera með málið til skoðunar.