Forseti danska þingsins, Thor Pedersen, krefst þess að notkun þingmanna á samskiptasíðunum Facebook og Twitter í þingsal verði takmörkuð.
„Málið er ekki að ég telji að þetta sé rangt, en einhvers staðar verðum við að draga mörkin. Undir hvaða kringumstæðum tengist þetta vinnunni í þingsal?" hefur Berlingske Tidende eftir Pedersen að lokinni fyrstu umræðu um netnotkun á þingi.
Stutt er síðan þingmenn Sósíalíska þjóðarflokksins gagnrýndu Jafnarðarmannaflokkinn, sem opnaði nýlega spjallvef á heimasíðu sinni þar sem danskir borgarar geta spjallað við þingmennina á meðan þeir sitja í þingsal. Hugmyndin er sú að allir geti sett fram hugmyndir á meðan umræður standa yfir.
Thor Pedersen, sem er þingmaður Venstre, er hinsvegar ekki hrifin af þessari hugmyndafræði. „Sumir halda að við getum sungið og spilað, skrifað, hlustað og gert allt mögulegt á sama tíma. Ég er kannski gamaldags en ég tel að nærvera skipti meira máli og maður verði að einbeita sér að því sem er að gerast. En það er eflaust mjög gamaldags viðhorf," segir forseti þingsins.
Fulltrúar bæði jafnaðarmanna og Sósíalíska þjóðarflokksins í forsætisnefnd danska þingsins neita hinsvegar að skikka þingmenn sína til að takmarka tímann sem þeir hanga á netinu í þingsal.
„Mitt viðhorf er að það sé ekki hægt að setja neinar reglur um þetta, því hvar liggur línan á milli þess að svara tölvupóstum og að skrifa eitthvað á Facebook," hefur Berlingske eftir jafnaðarmanninum Mogens Lykketoft, og talsmaður Sósíalíska þjóðarflokksins segist „alls ekki vera sammála Thor Pedersen".