Ólafsfirðingar eru ekki á eitt sáttir við þá ákvörðun útgerðarfélagsins Ramma að ætla að mála Sigurbjörgu ÓF1 í sama lit og er á öðrum skipum Rammans. Alls hafa 176 mótmælt þessu á Facebook síðu sem hefur verið sett upp í mótmælaskyni við áform Rammans. Greint er frá þessu á vef fyrirtækisins.
„Þeir sem til þekkja vita að Ólafsfirðingar hafa mikinn áhuga á skipum sínum og útgerð enda er fólki óvíða betur ljóst mikilvægi sjávarútvegs fyrir byggðarlag sitt.
Gott dæmi um þetta er að nú hafa 176 manns mótmælt litabreytingu á Sigurbjörgu ÓF 1 á fésbókinni, en eins og við sögðum frá er nú verið að mála skipið með sama rauða lit og er á öðrum skipum Rammans.
Áður var Sigurbjörgin blá og ljóst er að sitt sýnist hverjum um þessa breytingu. Við vonum bara að það fiskist á rauða litinn ekki síður en á þann bláa," segir á vef Rammans.