Undanfarin 12 ár hefur bandaríski listamaðurinn Jonathan Keller tekið ljósmynd af sjálfum sér og birt hana á netinu. Með bókstaflegum hætti hefur hann búið til fésbók af sjálfum sér.
Árið 1998 ákvað Keller, sem átti ekki mikinn aur, að kaupa sér flotta stafræna myndavél. Þáverandi kærasta listamannsins var ekkert sérlega ánægð með kaupin og spurði hvort hann ætlaði að nota vélina á hverjum degi. Hann þrjóskaðist við en það eina sem honum datt í hug að mynda daglega var hann sjálfur.
Dag einn tók hann mynd af sjálfum sér sitjandi inni í svefnherberginu sínu. Daginn eftir tók hann aðra mynd. Nú hefur hann tekið yfir 3.900 myndir og getur séð hvernig hann hefur litið út á hverjum degi frá árinu 1998. En sleppti hins vegar nokkrum vikum þegar hann heimsótti suðurskautið. Þá var hann ekki með myndavél.
Athyglisvert er að skoða hvernig hann breytist með tímanum. Sérstaklega í myndbandi sem hann hefur tekið saman og er leikið hratt. Myndskeiðið hefur notið mikilla vinsælda á YouTube.
Keller, sem er 34 ára gamall og frá New York, segir að í fyrstu hafi hann byrjað á þessu til að skaprauna fyrrverandi kærustu sinni. Smátt og smátt hafi hins vegar myndaverkefnið öðlast eigið líf.
Aðspurður segist hann stefna að því að halda áfram að mynda sjálfan sig til dauðadags. Hann vonast hins vegar að hann muni eldast vel, líkt og Hollywood-stjörnurnar Sean Connery og George Clooney.