Lögreglan í Borgarfirði þurfti um helgina að aðstoða menn, sem komust ekki inn í bíl sinn. Ferfættur farþegi, hundur af chihuahua-kyni, hafði læst bílnum og komust mennirnir ekki inn.
Fram kemur á vef Skessuhorns, að lögreglan hafi fengið tilkynningu um að tveir menn væru í hörku deilum og létu ófriðlega utan við fólksbíl við þjóðveginn sunnan Hafnarfjalls.
Segir á vefnum, að lögreglan hafi farið á staðinn og þá kom í ljós að mennirnir tveir voru læstir úti og farþegi í bílnum neitaði að opna og setti bara upp hundshaus, sama hvar þeir skömmuðust í honum.
Lögreglunni tókst að opna bílinn og hleypa farþeganum út sem gelti þá án afláts enda feginn að komast út. „Komnar voru á fullar sættir á milli aðila þegar lögreglan yfirgaf vettvanginn," segir Skessuhorn.