Kolkrabbinn Páll reyndist sannspár þegar hann spáði spænskum sigri í viðureign Þjóðverja og Spánverja í undanúrslitum heimsmeistaramótsins í knattspyrnu í kvöld. Þýska þjóðin snérist hins vegar gegn Páli eftir spádóminn og vildu sumir að kolkrabbanum yrði breytt í sjávarréttasalat.
Páll er tveggja ára kolkrabbi, sem býr í sædýrasafni í þýsku borginni Oberhausen. Starfsmenn sædýrsafnsins tóku upp á því árið 2008 að láta Pál velja sér skel úr tveimur kössum, sem merktir voru Þýskalandi og andstæðingum í væntanlegum landsleikjum. Fullyrt er að Páll hafi spáð rétt fyrir um úrslitin í öll skipti nema eitt, þegar Þjóðverjar og Spánverjar mættust á Evrópumótinu árið 2008. Þá fékk hann sér skel úr glerkassanum, sem merktur var Þýskalandi en Spánn vann.
Páll spáði rétt fyrir um alla leiki Þjóðverja á HM og því brá Þjóðverjum í brún þegar hann valdi sér úr kassanum með spænska fánanum. Að sögn blaðsins Der Western fylltust Facebook- og Twitter-síður af ummælum sem lýstu vandlætingu á Páli og lögðu sumir til að kolkrabbinn yrði steiktur, grillaður eða breytt í sjávarréttasalat eða paellu. Aðrir vildu henda honum í hákarlabúrið.