Þýski kolkrabbinn Páll spáir Spáni sigri á Hollandi í úrslitaleik heimsmeistaramótsins í knattspyrnu á sunnudag. Þá spáir hann Þjóðverjum sigri á Úrúgvæ í leiknum um 3. sætið á morgun.
Páll hefur til þessa spáð rétt fyrir um alla leiki Þýskalands á mótinu, þar á meðal tapleikinn gegn Spánverjum í undanúrslitum við litlar þakkir landa hans.
Evrópskar sjónvarpsstöðvar sýndu beint frá því í morgun þegar tveir glerkassar með fánum Þýskalands og Úrúgvæ voru látnir síga niður í búr Páls í sædýrasafninu í Oberhausen. Eftir að hafa setið drjúga stund á kassanum með fána Úrúgvæ snéri Páll sér að hinum kassanum, opnaði hann og sótti skel sem þar var.
Nokkru síðar spáði Páll í úrslitaleikinn en þá voru glerkassar með skeljum og fánum Spánar og Hollands látnir síga niður til hans. Páll settist strax á spænska kassann og opnaði hann en leit ekki við hollenska kassanum.
Páll spáði með þessum hætti rétt fyrir um sigra Þjóðverja á Argentínu, Englandi, Ástralíu og Gana við mikinn fögnuð Þjóðverja. Þá setti hins vegar hljóða þegar kolkrabbinn spáði Spánverjum sigri í undanúrslitunum og þegar Þjóðverjar töpuðu leiknum 1:0 hófst umræða á netinu um að réttast væri að breyta Páli í sjávarréttasalat eða sushi eða nota hann í paellu eða aðra rétti.
Spánverjar hafa hins vegar tekið Pál undir sinn verndarvæng og José Luiz Rodriguez Zapatero, forsætisráðherra Spánar, sagði í hálfkæringi í gærkvöldi, að hann íhugaði að senda spænska lífvarðasveit til Oberhausen.
Reiknað er með, að þetta sé í síðasta skipti, sem Páll spáir fyrir um úrslit fótboltaleikja. Hann er orðinn tveggja og hálfs árs og kominn á eftirlaunaaldur kolkrabba, sem sjaldan verða eldri en þriggja ára.