Ítalskir fjölmiðlar, sem gátu litlu fagnað á meðal ítalska landsliðið var með á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu, vilja nú slá eign sinni á kolkrabbann Pál, sem hefur spáð rétt fyrir um úrslit í leikjum á HM. Þjálfari dýrsins upplýsti nefnilega í dag að Páll hefði veiðst í ítalskri lögsögu.
„Kolkrabbinn heitir Paolo," segir íþróttablaðið Tuttosport í dag.
Blaðið Il Corriere della Sera segir, að þetta sé smá sárabót í lok heimsmeistaramóts sem hafi fært Ítölum litla gleði. Ítalska liðið komst ekki upp úr riðlakeppninni.
Verena Bartsch, þjálfari Páls, sagði í viðtali við þýska blaðið Bild í dag, að hún hefði fangað hann í apríl sl. undan ítölsku eyjunni Elbu. Hann hefði þá verið fjögurra vikna gamall.
Þetta stangast á við opinbera ævisögu Páls, sem sædýrasafnið í Oberhausen í Þýskalandi hefur gefið út. Samkvæmt henni er Páll tveggja og hálfs árs og kom upphaflega frá Weymouth á Englandi.
Páll hefur spáð rétt fyrir um leiki Þýskalands á HM til þessa, þar á meðal að þeir myndu tapa fyrir Spáni í undanúrslitum, sem hann fékk litla þökk fyrir. Hann hefur einnig spáð fyrir um úrslitaleikinn í kvöld og sagði, með því að sækja sér skel í kassa merktan Spáni, að Spánverjar verði heimsmeistarar.