Spænski æringinn Jaume Marquet Cot, sem nefnir sig Jimmy Jump, lét til sín taka fyrir úrslitaleik Spánverja og Hollendinga í Jóhannesarborg í gærkvöldi. Hann stökk inn á leikvanginn og reyndi að snerta gullstyttuna, sem keppt er um í mótinu en embættismönnum tókst að hindra það og snúa hann niður.
Jimmy Jump nýtti sér þegar athygli vallarstarfsmanna beindist augnablik að öðru. Hann hljóp inn á leikvanginn og að styttunni, sem þar stóð á stalli. Þegar hann var kominn að styttunni greip öryggisvörður hann og snéri niður. Jimmy var síðan dreginn út af vellinum.
Jimmy Jump vakti athygli þegar hann fór upp á sviðið í Eurovision söngvakeppninni í Ósló í maí og dansaði með Spánverjum þegar spænska lagið var flutt. Spánverjar fengu að flytja lagið aftur vegna þessarar truflunar.
Hann hefur einnig truflað fleiri knattspyrnumót, tennisleiki og tískusýningar og einu sinni tók hann óboðinn þátt í samhæfðum sundfimleikum.
Myndskeið af atvikinu í Jóhannesarborg