Pakistönskum hótelstarfsmanni hefur verið hrósað í hástert fyrir að hafa komið 50.000 dölum (rúmum sex milljónum kr.) til gests sem gleymdi fénu á hótelherbergi í Gilgit í Pakistan.
Essa Khan, sem starfar við ræstingar á Serena hótelinu í borginni, fann féð í herbergi sem japanskur gestur hafði dvalið í. Upphæðin var í reiðufé, eða öll í 100 dala seðlum. Gesturinn var himinlifandi þegar hann fékk peningana til baka.
Fram kemur á vef breska útvarpsins að Khan, sem þéni um 30.000 kr. á mánuði, segi að sér hafi aldrei dottið í hug að taka peningana og halda þeim. „Hollusta mín gagnvart hótelinu og uppeldi mitt hefur kennt mér annað,“ segir hinn 51 árs gamli Khan.
„Nú eru erfiðir tímar fyrir alla, en það þýðir ekki að við eigum að taka upp á því að stela og taka hluti sem við eigum ekki.“
Khan, sem er fimm barna faðir, vonast til að atvikið verði til þess að fólki muni líta á Pakistan í jákvæðara ljósi. Oftar en ekki hefur verið dregin upp dökk mynd af Pakistan og þá hefur ríkisstjórn landsins margsinnis verið ásökuð um spillingu.
„Ég vil að allir í heiminum viti að það er mikið af góðu fólki hérna í Pakistan. Það eru ekki allir hryðjuverkamenn.“
Hótelstjórinn hefur verðlaunað Khan og þá hefur ríkisstjóri Punjab hrósað honum og boðið honum til Lahore til að vera viðstaddur hátíðlega athöfn.