Landslið Þjóðverja í knattspyrnu stóð sig framar vonum á heimsmeistaramótinu í Suður-Afríku, náði þriðja sæti, þrátt fyrir fjarveru Michaels Ballack sem var meiddur.
En nú er komið upp undarlegt mál sem sagt er frá í breska blaðinu Guardian. Umboðsmaður Ballacks segir að liðið sé ekki nógu vígreift vegna þess að það sé „fullt af hommum“.
Sagt er frá ummælum umboðsmannsins, Michaels Becker, í tímaritinu Der Spiegel. Blaðamaðurinn Aleksander Osang tók viðtal við Becker fyrir mótið og segir að Becker hafi tilgreint nokkra leikmenn sem væru samkynhneigðir, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.