Sextug sænsk kona sem bjó í úthverfi í Stokkhólmi ásamt móður sinni, systur og syni, bjó þar einnig með 191 ketti. Að sögn sænska blaðsins Aftonbladet, var skrítna heimilishaldið tilkynnt til félagsþjónustunnar í Stokkhólmi sem athugaði málið.
Félagsþjónustan sagði aðstæður á heimilinu vera skelfilegar. Kettir lágu út um allar trissur, á borðum, í hillum og í gluggakistum. Kassar með kattasandi höfðu ekki verið tæmdir í langan tíma og því yfirfullir af úrgangi. Margir kettirnir voru fárveikir og sumir dauðvona. Lóga þurfti 173 köttum en þeir 18, sem urðu eftir, voru sendir í dýraathvarf.
„Það var mikill ammóníakfnykur þarna og því erfitt að anda,“ segir Marie Lundin, dýralæknir hjá félagsþjónustunni.
Samkvæmt sænskum lögum er ólöglegt að eiga fleiri en 9 ketti. Karina Burlin, forsvarsmaður félagsþjónustunnar, sagði í samtali við blaðið að fólkið hefði talið sig geta séð um kettina en félagsþjónustan var því ekki sammála.
Fleiri svipuð mál hafa komið til kasta sænsku félagsþjónustunnar. Árið 2007 uppgötvaðist að kona bjó með 11 svönum í einu herbergi í Stokkhólmi. Þá bjó karlmaður með 21 hundi í þriggja herbergja íbúð í Gävle í Svíþjóð.