Pítsusendill bjargaði lífi karlmanns sem fékk hjartaáfall í sömu andrá og sendillinn var að koma með flatböku. Það var manninum til happs að pítsusendillinn starfaði áður sem sjúkraliði.
Christopher Wuebben, sem er 22 ára, heyrði konu hrópa á hjálp þegar hann var að koma með pítsu að heimili George Linn í úthverfi Denver.
Eigandi pítsustaðarins, John Keiley, segir í samtali við Reuters að Wuebben hafi sagt við konuna að hann kynni skyndihjálp. Hann hóf þegar í stað hjartahnoð og bjargaði lífi mannsins.
Linn var fluttur á sjúkrahús og liggur hann nú á gjörgæslu.
Wuebben, sem er fyrrverandi hermaður, er nýfluttur til Colorado eftir að hafa misst vinnu sem sjúkraliði í Illinois að sögn Keileys.
Hann gæti brátt séð á eftir Wuebben því a.m.k. eitt sjúkrahús og slökkvilið í Denver hefur boðið pítsusendlinum vinnu.
„Hann er góður strákur sem var ekkert að missa sig yfir því sem hann hafði gert. Og vonandi mun þetta leiða til góðs fyrir hann,“ segir Keiley.