Læknar á Queen Mary's spítalanum í Kent í Englandi eru furðu lostnir yfir hvítu barni sem svört hjón eignuðust á dögunum. Læknarnir segja Nmachi ekki vera albinóa og hvorugt foreldra eiga hvíta forfeður.
Faðir barnsins, Ben Ihegboro, sagði í viðtali við breska dagblaðið The Sun „Eftir að eiginkona mín eignaðist barnið störðum við bara orðlaus á það tímunum saman. Það eina sem ég sagði var að spyrja hvað í ósköpunum er í gangi?“
Nafn barnsins, Nmachi, merkir fegurð guðs á nígerísku, sem er móðurmál foreldra hennar.
„Hún líkist ekki albinóa. Allavega ekki þeim sem ég hef séð í Nígeríu eða í bókunum. Hún lítur bara út eins og heilbrigt hvítt barn,“ sagði Ben sem þvertekur fyrir það að eiginkona hans hafi verið honum ótrú. „Auðvitað er þetta mitt barn. Eiginkona mín er mér trú og þó svo að hún hafi ekki verið það, þá hefði barnið ekki litið svona út.“
Bryan Sykes, deildarforseti erfðafræðideildar Oxford háskóla, segist lítið botna í málinu. „Þegar kynþættir blandast geta afkvæmi borið þann húðlit sem er ljósari og stundum getur það verið mjög ólíkt húðlit foreldra. Þetta er algengt þar sem mikið er um blandaða húðliti eins og í karabíska hafinu. Foreldrar hennar eru samt frá Nígeríu. Þar er lítil sem engin blöndun,“ sagði prófesorinn sem kveður báða foreldra þurfa að bera hvít gen til að barnið beri þann lit.
Sykes bætti við að hárið væri mjög óvanalegt. „Jafnvel ljóshærð börn fæðast ekki með svona hár.“ Hann telur líklegast að um sé að ræða einhverskonar óþekkta genetíska stökkbreytingu.
Hjónin sem búa í Woolwich eiga tvö önnur börn sem bæði eru svört. Angela, móðir stelpunnar, sagði litinn litlu máli skipta. „Húðlitur Nmachi skiptir engu máli. Hún er kraftaverk. En hvað í ósköpunum gerðist eiginlega?“
Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem svört hjón í Bretlandi eignast hvítt barn en á vef The Sun er sagt frá öðru slíku tilviki.