Áttræður Frakki liggur nú á sjúkrahúsi í París en honum var í síðustu viku bjargað úr óvenjulegri prísund. Hafði kona mannsins, sem er mun yngri, lokað hann inni í þvottahúsi í íbúð þeirra í heilt ár.
Maðurinn var mjög illa farinn af vannæringu þegar honum var bjargað. Hann er sagður vera með meðvitund á sjúkrahúsinu en vilji ekki ræða við neinn.
Eiginkonan, sem er 45 ára, var handtekin í gær og ákærð fyrir misþyrmingar, frelsissviptingu og að hagnýta sér veikindi mannsins. Meintur ástmaður konunnar og sonur hennar voru einnig handteknir ákærðir fyrir aðild að málinu en þeim hefur nú verið sleppt gegn tryggingu. Lögregla segir, að fjölskyldan hafi tekið um hálfa milljón evra, jafnvirði um 78 milljóna króna, út af bankareikningum mannsins á síðustu mánuðum.
Fólkið býr í þorpinu Arrou, suðvestur af París. AFP fréttastofan hefur eftir íbúum þar, að konan hafi þótt undarleg í háttum og sumir hafi vitað að hún væri gift mun eldri manni en byggi með öðrum yngri manni.
Gamli maðurinn og konan voru gefin saman fyrir þremur árum í þorpinu Droue þar sem þau bjuggu þá. AFP hefur eftir embættismanni þar, að bæjarstjórinn hafi ekki viljað gifta þau vegna þess að hann hafði efasemdir um sambandið. Á endanum framkvæmdi aðstoðarmaður bæjarstjórans hjónavígsluna. Þegar þetta gerðist hafi gamli maðurinn hafst við í einu herbergi í kjallara húss í Droue.
Fyrrverandi nágranni hjónanna í Droue segir, að maðurinn hafi aldrei farið út fyirr hússins dyr. Eina skiptið sem til hans sást hafi verið þegar hann fór í ráðhúsið til að gifta sig.
Lögregla segir, að maðurinn hafi síðast sést í júlí á síðasta ári þegar hann kom inn í lyfjabúð í Arrou. Lögregla var því í síðustu viku send til að kanna líðan hans og þá kom í ljós hvers kyns var.