Frakki sem hélt að hann hefði fundið sér nígeríska eiginkonu í gegnum netið varð fyrir vonbrigðum þegar eiginkonan reyndist vera svikamylla tveggja nígerískra karla. Höfðu þeir 25 þúsund evrur, 4 milljónir króna, út úr vonbiðlinum.
Mennirnir, Omodara Adedapo Oluseye og Adesuyi Ayodeji Adedapo, báðir 27 ára, hafa verið handteknir fyrir svikin, samkvæmt fréttatilkynningu frá nígerískri stofnun sem berst gegn spillingu. Mennirnir neita báðir sök.
Á Oluseye að hafa þóst vera kona þegar hann kynntist Frakkanum í gegnum netið í maí 2009. Þeir ákváðu síðar að ganga í hjónaband.
Oluseye sagði Frakkanum að „hún" myndi flytjast til Frakklands til þess að hitta vonbiðilinn. Hins vegar þyrfti „hún" á peningum að halda til þess að ráða sér lögfræðing í Nígeríu. Átti lögfræðingurinn að sjá um að innheimta laun sem fyrrum vinnuveitandi neitaði að greiða Oluseye. Jafnframt þyrfti að greiða fyrir ferðagögn.
Frakkinn, sem nefndur er Francois Mercade, sendi 25 þúsund evrur í gegnum netið til elskunnar sinnar áður en en hann uppgötvaði að hann hefði lent í svikamyllu.
Var það sendiráð Frakklands í Nígeríu sem tilkynnti þarlendum stjórnvöldum um svikin í september 2009.