Borgastjórnin í Riga í Lettlandi býður nú peningaverðlaun til þess íbúa sem leggur fram bestu hugmyndina um hvernig má binda endi á iðandi samfélag bjóra í borginni. Bjórarnir eru komnir vel á veg með að eyðileggja öll tré og runna meðfram árbökkum borgarinnar.
„Við eigum við bjórvandamál að stríða. Þeir eru að fella öll trén," hefur AFP eftir talskonu borgarstjórnar, Dzintra Abolina. Má m.a. nefna að með naumindum tókst að bjarga 100 ára gömlu eikartré og miklu borgarstolti frá því að verða fórnarlömb nagdýranna.
Í von um að lausn finnist á vandanum hefur umhverfissvið Riga sett fram verðlaunapott sem nemur tæplega 70.000 krónum og fellur í skaut þess íbúa sem leggur fram hagkvæma hugmynd til að stöðva eyðilegginguna án þess að skaða bjórana.
„Við leitum að lausn sem verndar trén og gróðurinn en sýnir um leið dýrunum gæsku," segir Abolina. Frestur til að skila hugmyndum er til 6. september en borgarstjórninni hefur þegar borist fjölmargar tillögur. „Kannski gætu aðrar borgir og bæir í heiminum deilt með okkur sinni reynslu af því að eiga við þetta vandamál."