Hundurinn Kiko, sem er af tegundinni Jack Russell Terrier, bjargaði nýlega lífi 48 ára gamals eiganda síns, Jerry Douthetts í Michigan, með afar óvenjulegum hætti, að sögn Jyllandsposten. Hann beit af honum eina tána.
Douthett var með bólgu í tánni, leyndi ástandinu af einhverri ástæðu fyrir eiginkonu sinni en hafði reynt að manna sig upp í að fara til læknis með því að hella í sig margarítukokkteilum og bjór. En hann sofnaði fast í kjölfarið. Þegar hann vaknaði sat Kiko við hliðina á honum í blóðpolli. Og táin var horfin, talið er að Kiko hafi étið hana.
Í ljós kom að alvarleg sýking hafði verið í tánni og er Kiko því bannað í bili að fara út, hann gæti hafa veikst. En fjölskyldan hyllir hvutta sem lífgjafa húsbóndans.