Hjátrúin segir, að það boði ekki gott ef 13. dagur mánaðar er föstudagur. Breskur 13 ára gamall drengur telur sennilega að eitthvað sé til í þessu eftir lífsreynsluna, sem hann varð fyrir í gær.
Breska blaðið Daily Telegraph segir frá því í gær, að klukkan 13:13 í gær, föstudaginn 13. ágúst, hafi 13 ára drengur orðið fyrir eldingu þar sem hann var ásamt fjölskyldu sinni á flughátíð í Suffolk.
Blaðið segir, að drengurinn hafi fengið lítilsháttar brunasár og verið fluttur á sjúkrahús en muni væntanlega ná sér að fullu.
Tveir aðrir gestir á flugsýningunni urðu einnig fyrir eldingu þegar þeir voru að horfa á sýningu flugsveitarinnar Rauðu örvanna. Fólkið meiddist lítið og þurfti ekki að fara á sjúkrahús.