Hjólastóla- og göngugrindardans er nýr og skemmtilegur möguleiki fyrir þá sem þurfa að notast við slík hjálpartæki við daglegar athafnir. Dansarar sem bundnir eru hjólastól dansa þar við gangandi dansara.
Kynning á þessari óvenjulegu dansíþrótt fór fram á laugardaginn í húsakynnum Tónskóla Sigursveins. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Dorrit Moussaieff forsetafrú voru meðal gesta á kynningunni og sýndi forsetafrúin þar meðal annars hvers hún er megnuð á dansgólfinu.
Hjólastóla- og göngugrindardans hefur notið vaxandi vinsælda á Norðurlöndunum undanfarin ár, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.