Það hefur ekki skort hugmyndir í hugmyndabanka, sem ríkisstjórn Davids Camerons, forsætisráðherra Bretlands, stofnaði á netinu þegar hann leitaði til almennings um aðstoð við að finna leiðir til að spara í ríkisrekstrinum.
Meðal hugmyndanna er að selja svani Englandsdrottningar, láta þingmenn vinna kauplaust og neyða fanga til að stíga þrekhjól og framleiða þannig rafmagn.
George Osborne, fjármálaráðherra, sem þarf að spara 30 milljarða punda á ári næstu árin, segir að allar hugmyndirnar verði skoðaðar þegar gerð verður fimm ára áætlun um fjárlagaramma. Þegar hafa verið kynntar ýmsar sparnaðartillögur, svo sem að fresta byggingu 700 nýrra skóla og aflýsa framkvæmdum upp á 10 milljarða punda, sem fyrri ríkisstjórn hafði ákveðið.
En meira þarf til. Um 45 þúsund tillögur hafa nú borist frá almenningi á vef fjármálaráðuneytisins. Sumar ganga ansi langt, svo sem að afleggja konungsdæmið, en aðrar virðast framkvæmanlegar, svo sem að láta ríkisstarfsmenn bóka ferðir og hótel á netinu í stað þess að láta dýrar ferðaskrifstofur um það.
Ýmsar tillögur hafa verið um að nýta vinnuafl fanga betur, svo sem að láta þá sjá um að elda mat fyrir sjúkrahús og hjúkrunarheimili. Einnig kom tillaga um að láta fanga puða á þrekhjólum og róðrarvélum og láta þá framleiða rafmagn.
Ein tillaga var um að biðja drottninguna að selja alla svanina sína til slátrarans. Samkvæmt fornum lögum á Englandsdrottning flesta svani í Bretlandi og svanakjöt var eitt sinn vinsæll réttur á borðum aðalsins.