Salerni, sem sagt er hafa verið í eigu bandaríska rithöfundarins JD Salingers, er nú boðið til sölu á uppboðsvefnum eBay og er lágmarksverð 1 milljón dala, jafnvirði 120 milljóna króna.
Seljandinn segist hafa fengið „notaða salernið" hjá hjónum, sem keyptu hús þar sem Salinger bjó áður. „Það er óhreinsað og er í upprunalegu ástandi," segir í sölulýsingunni á vefnum. „Þegar hann lést erfði eiginkona hans öll handrit hans og áformar að gefa einhver þeirra út. Hver veit hve margar þessara sagna hans voru upphugsaðar og skrifaðar á meðan Salinger sat á þessu hásæti."
Með salerninu fylgir bréf frá Joan Littlefield þar sem staðfest er að salernið hafi verið fjarlægt þegar hún og eiginmaður hennar gerðu upp hús í Cornish í New Hampshire, sem áður var í eigu Salingers.
Hún segir að salerninu hafi verið komið fyrir í húsinu fyrir mörgum áratugum þegar Salinger lét endurnýja það.
Nokkur tilboð hafa þegar komið í salernið, að því er kemur fram á vef BBC.
Salinger lést fyrr á þessu ári, 91 árs að aldri. Hann var þekktastur fyrir skáldsöguna Bjargvættinn í grasinu sem er talin ein áhrifamesta bandaríska skáldsagan á á síðari hluta 20. aldar.
Salinger dró sig fljótt í hlé úr skarkala heimsins, flutti til Cornish og sást afar sjaldan opinberlega. Hann hélt hins vegar áfram að skrifa og er talinn hafa lokið 15 handritum.