21 ár er liðið síðan bandaríski fjallgöngumaðurinn William Holland, þá 38 ára, hvarf þegar hann reyndi við hættulegt jöklaklifur í Kanada, í apríl 1989. Ekkert hefur spurst til hans síðan þar til nú um helgina, þegar tveir fjallgöngumenn gengu fram á vel varðveitt lík hans í jöklinum.
Þegar Holland hvarf var hann að reyna við hættulega leið upp frosinn foss sem þekkt var með nafninu „Slipstream", við tindinn Snow Dome, sem stendur 3.456 metra yfir sjávarmáli í jöklum kanadísku Klettafjallanna. Nú virðist sem hann hafi hrapað ofan í jökulsprungu og lík hans varðveist þar í rúma 2 áratugi þar til nú, þegar jökullinn er tekinn að bráðna, að lík hans kom aftur í ljós.
Kanadíski björgunarsveitarmaðurinn segir að bráðnað hafi ofan af Holland og þegar hann og félagi hans gengu fram á líkið hafi hvergi þurft að losa það upp eða grafa ofan af því. „Hann var eiginlega bara skinn og bein og leit út eins og múmía. Fötin hans og göngubúnaðurinn voru nokkurn veginn á sínum stað og ef þú hugsar um hvar hann var má eiginlega segja að hann hafi verið djúpfrystur í 21 ár."
Holland fannst með brodda á gönguskónum og með reipi slengt yfir öxlina. Fjölskyldu hans hefur verið tilkynnt að hann sé loks kominn í leitirnar. Talið er að ísinn sem hann kleif hafi brotnað og hrunið með honum niður fjallshlíðina eina 300 metra. Vitað er um a.m.k. 2 aðra jöklafara sem hafa horfið í þjóðgarðinum og ekki útilokað að jökullinn muni einhvern daginn einnig skila þeim til baka.