Glæpaflokkur í Mexíkó hefur þjálfað ungar og fallegar konur til að fremja morð. Er áætlunin sú, að konurnar afvegaleiði óvini glæpamannanna svo auðveldara sé að myrða þá.
Þetta kom fram í yfirheyrslum lögreglu yfir félaga í glæpaflokknum La Linea. Sagði hann að um það bil 30 konur á aldrinum 18-30 ára hefðu verið þjálfaðar til þess arna og flestar þeirra hefðu þegar framið morð.
La Linea er angi af Juarez fíkniefnahringnum í borginni Ciudad Juarez, þar sem flest ofbeldisverk í Mexíkó eru framin.
Yfir 2660 morð voru framin í tengslum við átök fíkniefnahringja í borginni á síðasta ári og á þessu ári hafa 1860 slík morð verið tilkynnt til lögreglu. Flest eru talin tengjast átökum fíkniefnahringjanna Juarez og Sinaloa um yfirráð yfir smyglleiðum til Bandaríkjanna.