Konur í Bandaríkjunum eru að ná körlum í launum og sumstaðar eru þær með hærri laun er karlar. Ástæðan er fyrst og fremst að konur eru duglegri að mennta sig en karlar.
Það er rannsóknarstofnun í New York sem hefur skoðað hvernig laun og menntun kynjanna hefur verið að þróast.
Það eru einkum ógiftar konur á þrítugsaldri sem eiga ekki börn og eru búsettar í stórum borgum sem eru að ná góðum árangri á vinnumarkaði. Könnun leiðir í ljós að þessar ungu konur eru með 8% hærri laun en karlar í sama aldurshópi. Í borgum eins og Atlanta og Memphis reyndist þessi munur allt að 25%. Eftir sem áður sýnir könnunin að í Bandaríkjunum öllum fá konur sem vinna fullan vinnudag að meðaltali um 80% af launum karla.
Í skýrslunni segir að ástæða þess að ungar ógiftar konur eru sumstaðar með hærri laun en karlar sé einkum að konur séu duglegri að mennta sig en karlar. Um 75% af konum sem klára framhaldsskóla fara í háskóla, en aðeins um 66% karla fara sömu leið. Mun fleiri konur útskrifast úr háskóla en karlar og þær eru að meðaltali með meiri háskólamenntun en karlar.