Gripið hefur verið til þess að ráðs að slökkva ljósin í háhýsum stórborgarinnar New York til að koma í veg fyrir að farfuglar rekist á byggingarnar. Verkefni sem kallast „ljósin slökkt“ hefur verið sett í gang og stendur það til 1. nóvember þegar fuglarnir eiga að vera búnir að færa sig um set.
Meðal þeirra háhýsa sem munu deyfa eða slökkva ljósin eru Empire State byggingin og Chrysler háhýsin, tvö af helstu kennileitum borgarinnar.
Talið er að um 90.000 fuglar drepist á ári hverju þegar þeir fljúga á glerrúður háhýsanna í borginni, að því er fram kemur á vef breska útvarpsins.
Skipuleggjendur verkefnisins, samtökin NYC Audubon sem vernda villta fugla og búsvæði þeirra í borginni, segja að skær ljós rugli fuglana í ríminu og þeir verði áttavilltir. Þetta er í fimmta sinn sem ljósin eru slökkt.
Samtökin hafa beðið eigendur og leigjendur í háhýsum í borginni að slökkva ljósin á hæðum þar sem enginn er á milli miðnættis og dögunar.