Lík konu fannst nýverið fast í reykháfi húss elskhuga hennar en hún ætlaði að laumast inn til hans. Konan, Jacquelyn Kotarac, reisti stiga við húsið og klifraði ofan í reykháfinn en talið er að hún hafi kafnað.
Talið er að líkið hafi verið í fast í reykháfinum í þrjá daga áður en það fannst. Konan og maðurinn áttu í stormasömu sambandi og eftir að þau höfðu rifist og hann neitað að hleypa henni inn í húsið brá hún á það ráð að leita annarra inngönguleiða. Á meðan hún var á þakinu brá maðurinn sér burt og varð því ekki var við tilraunir hennar til að komast niður reykháfinn.
Þremur dögum síðar varð kona, sem gætti hússins, vör við ólykt úr eldstæðinu í stofu hússins. Þá seytlaði vökvi niður háfinn. Konan og sonur hennar könnuðu málið og sáu lík konunnar fast um 60 cm ofan við eldstæðisopið.
Það tók slökkviliðsmenn fimm klukkustundir að losa líkið úr háfnum en til að gera það þurfti að taka reykháfinn í sundur.