Popptónlist og íþróttasöngvar hafa verið bannaðir í kaþólskum jarðarförum í Ástralíu, samkvæmt nýjum viðmiðunarreglum frá erkibiskupnum í Melbourne. Kaþólsk jarðarför á með réttu að vera helgiathöfn en ekki veraldleg hátíðahöld að sögn biskupsins, Dennis Hart.
Stutt er síðan ný rannsókn sýndi fram á að fótboltasöngur væri orðinn eitt allra vinsælasta tónsmíðin sem spiluð er við jarðarfarir í Melbourne. Biskupinn brást við með því að senda út reglur um hvernig jarðarfarir skulu fara fram, en það hefur vakið misjöfn viðbrögð meðal sóknarbarna að sögn BBC.
Í reglunum, sem voru sendar á rúmlega 200 söfnuðum í og við Melbourne, er tekið fram að taka skuli mið af hinstu óskum hins látna þegar jarðarförin er skipulögð og eins megi fjölskylda og vinir koma með tillögur og ábendingar. Fögnuður yfir æviskeiði hins látna á hinsvegar aðeins heima í félagslegum athöfnum fyrir eða eftir kirkjuathöfnina, að mati erkibiskupsins.
„Aldrei skal spila eða syngja veraldlega tónlist í kaþólskri jarðarför, svo sem rómantískar ballöður, popp- eða rokklög, né pólitíska söngva eða íþróttasöngva," segir í reglunum. Þrjú vinsælustu jarðarfararlögin í Melbourne eru um þessar mundir stuðningslag fótboltafélagsins Collingwood, lagið My Way í flutningi Frank Sinatra og Wonderful World í flutningi Louis Armstrong.
Haft er eftir áströlskum útfararstjórum að reglur erkibiskupsins sýni tillitsleysi gagnvart þörfum syrgjandi ættingja sem vilji minnast hins látna með persónulegum athöfnum þar sem m.a. eru birtar ljósmyndir og myndbönd og uppáhalds tónlist hins látna leikin.