Dómstóll í Leipzig í Þýsklandi hefur úrskurðað að stjórnendur matvöruverslunar í borginni hafi ekki mátt reka konu úr starfi fyrir það að hafa ætlað að taka brauð, sem var komið fram yfir síðasta söludag, með sér heim.
Konan, sem er 44 ára gömul, starfaði á afgreiðslukassa í versluninni. Í mars sl. var hún beðin um að setja brauðið í gám fyrir lífrænan úrgang. Skömmu síðar fannst brauðhleifurinn í veski konunnar, en öryggisstarfsmaður í versluninni leitaði á konunni þegar hún var á leiðinni heim að vinnudegi loknum.
Konan heldur því fram að hún hafi ætlað að setja brauðið í gáminn, en yfirmenn hennar voru á öðru máli. Þeir vildu meina að hún hefði ætlað að fara með brauðið heim og gæða sér á því þar.
Dómarinn í málinu segir að jafnvel þótt að konan hafi ætlað að fara með brauðið heim til að borða það þá jafngildi það ekki brottrekstrarsök. Sérstaklega í ljósi þess að konan hefur starfað fyrir saman fyrirtækið í 27 ár og síðast en ekki síst í ljósi þess að brauðið var orðið verðlaust.