Bandarísk kona, Vera Delgado, hefur höfðað mál á hendur sjúkrahúsi þar sem læknir á sjúkrahúsinu umskar son hennar fyrir mistök. Sonur Delgado, Mario Viera, var umskorinn átta daga gamall á South Miami sjúkrahúsinu án hennar vitundar.
Delgado segir í viðtali við Miami Herald að það sé algjörlega óskiljanlegt hvernig þetta hafi getað gerst. „Ég vildi ekki að þetta yrði gert. Ég er á móti umskurn. Þeir eiga engan rétt á að gera þetta," segir Delgado en Mario var á vökudeild eftir fæðinguna vegna sýkingar.
Þegar móðir hans kom að heimsækja hann einn daginn þá sér hún að það er lyfjaglas við hliðina á rúmi drengsins. Þegar hún spurði út í lyfið þá sagði hjúkrunarfræðingur henni að þetta væri verkjalyf sem hann fengi eftir umskurnina.
Stjórn sjúkrahússins hefur beðist afsökunar á mistökunum og segir að gripið hafi verið til aðgerða svo þetta endurtaki sig ekki.
Umskurn barnsins voru óheppileg mistök sem eru tilkomin vegna þess að skilaboð voru túlkuð rangt. Um leið og mistökin uppgötvuðust lét læknirinn og hjúkrunarfræðingur fjölskyldu vita hvað hafði gerst.
En Delgado er ekki sátt. Hún hefur höfðað mál gegn sjúkrahúsinu og kært lækninn til lögreglu fyrir árás. „Þetta er stórmál. Í framtíðinni mun hann spyrja hvers vegna hann er ekki eins og pabbi sinn."