Fjörutíu og tveggja ára gömlum Frakka tókst í kvöld að synda yfir Ermasundið. Það sem vekur sérstaka athygli er að maðurinn missti báða handleggi og fótleggi í kjölfar slyss sem hann lenti í fyrir 16 árum.
Philippe Croizon lagði af stað frá Folkestone í Kent kl. 6:45 að breskum tíma. Það tók hann rúmar 14 klukkustundir að synda yfir til Frakklands, alls 34 kílómetra. Hann stefndi á að ljúka sundinu á innan við 24 klukkustundir. Hann kom á land í Cap Gries Nez klukkan 20:13 að breskum tíma. Félagar hans telja að um nýtt met fatlaðra sé að ræða.
Fyrir 16 árum slasaðist hann alvarlega þegar hann hlaut raflost þegar hann var að aftengja sjónvarpsloftnet á þaki húss. Hann slasaðist það mikið að læknar neyddust til að aflima hann.
Croizon sagði í samtali við breska útvarpið að hann hefði aldrei misst trúna á að geta lokið sundinu, þrátt fyrir alla verkina. Undirbúningur fyrir sundið stóð yfir í tvö ár.