Brasilíski trúðurinn Tiririca vann yfirburðasigur í þingkosningunum í Brasilíu. Hann fékk 1,3 milljón atkvæða í Sao Paulo þar sem hann bauð sig fram.
Tiririca, eða Francisco Oliveira Silva, bauð sig fram undir kjörorðinu „Það getur ekki versnað“. Tiririca fékk 1.353.355 atkvæði, en næstur kom fyrrverandi fylkisstjóri í Rio með tæplega 700 þúsund atkvæði. Það má því segja að Tiririca hafi sigrað með glæsibrag.
Tiririca birti í kosningabaráttu sinni myndskeið á YouTube sem milljónir manna horfðu á. Þar segir hann m.a.: „Hvað gerir þingmaður? Það veit ég sannarlega ekki. En ef þú kýst mig þá skal ég komast að því fyrir þig.“
Meðal þeirra sem voru kosnir á þing með Tiririca er fótboltamaðurinn Romario, sem er núna þingmaður fyrir Rio de Janeiro.