Danska lögreglan rannsakar nú teygjustökk sem Svíi framkvæmdi af Eyrarsundsbrúnni, en athæfið er ólöglegt. Svíinn setti myndband af stökkinu á YouTube og var málið í kjölfarið tilkynnt til lögreglunnar. Þetta er fyrsta teygjustökkið fram af brúnni.
Í myndbandinu sést hópur manna aka út á miðja brúna. Þar undirbúa þeir stökkið. Teygjan er bundin við brúna og stuttu seinna sést maðurinn stökkva fram af. Hann var með hjálm á höfði og á honum var myndavél og fjaðrir, en stökkvarinn kallar sig Brúarindjánann.
Yfirmaður öryggismála á brúnni segir að Eyrarsundsbrúin sé hraðbraut en ekki leikvöllur. Þetta hafi verið ólögmætt og málið hafi því verið tilkynnt til lögreglu. Reynt verði að koma í veg fyrir slíkt athæfi í framtíðinni.
Talið er að sex menn á fertugsaldri hafi tekið þátt í athæfinu.