George W. Bush, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, sagðist í dag ekki sakna margs úr Hvíta húsinu, en þó helst dekursins.
Bush er á ferð um Bandaríkin til að kynna nýja endurminningabók sína, Decision Points. Hann mætti á fund um 3000 ellilífeyrisþega á Flórída í dag og viðurkenndi, að hann sakaði þeirra þæginda sem fólust í því að geta flogið á milli staða í forsetaflugvélinni og þurfa aldrei að bíða á umferðarljósum í borgum. Hann sagðist þó sakna mest, að vera ekki lengur æðsti yfirmaður Bandaríkjahers.
Í The Villages samfélaginu, þar sem Bush hélt ræðu sína, eru margir fyrrverandi hermenn og flestir styðja Repúblikanaflokkinn í Bandaríkjunum. Margir í hópnum veifuðu bandarískum fánum og voru með höfuðföt með merkjum úr hernum.