Rómversk stytta af guðinum Mars, sem prýðir skrifstofu Silvio Berlusconi forsætisráðherra Ítalíu, hefur verið gerð upp. Styttan skartar m.a. glænýju typpi og var það sett á samkvæmt sérstökum fyrirmælum forsætisráðherrans.
Marmarastyttan af Mars, stríðsguði Rómverja, og ástargyðjunni Venusi, var gerð á annarri öld eftir Krist. Viðgerðin kostaði 70.000 evrur (10,8 milljónir kr.) og voru hefðbundnar aðferðir við viðgerð slíkra forngripa ekki í heiðri hafðar, að sögn dagblaðsins La Repubblica.
Viðgerðin fór fram samkvæmt skýrum skipunum forsætisráðherrans, að sögn dagblaðsins. Auk þess að endurgera manndóm Mars var einnig bætt á hann hendi og Venus fékk líka nýja hendi.
Typpi voru oft brotin af rómverskum styttum og þóttu þau eftirsóttir minjagripir. Einnig voru dæmi þess að styttur væru limlestar - í bókstaflegri merkingu - til að þær særðu síður sómakennd siðprúðra borgara.