Barbara Bush, fyrrverandi forsetafrú Bandaríkjanna, sagði í viðtali við sjónvarpsstöðina CNN, að hún vonaðist til þess að Sarah Palin, sem hefur gefið til kynna að hún hyggi á framboð í forsetakosningum eftir tvö ár, haldi sig í Alaska þar sem hún býr.
„Ég sat einu sinni við hliðina á henni. Fannst hún vera falleg. Og hún er mjög ánægð í Alaska - ég vona að hún verði þar," sagði Barbara við CNN þar sem hún stóð við hliðina á George H.W. Bush, manni sínum.
Barbara, sem er 85 ára, er þekkt fyrir beitta kímnigáfu sína.
Afstaða hennar til Palin endurspeglar viðhorf margra í valdastofnunum Repúblikanaflokknum, sem hafa fylgst áhyggjufullir með því hvernig áhrif Palin og skoðanasystkina hennar í svonefndri teboðshreyfingu hafa aukist að undanförnu.