Kínversk bókaútgáfa hefur innkallað bók sem inniheldur safn Grimms-ævintýra. Fyrir mistök var þýdd japönsk umritun á ævintýrunum þar sem þeim er snúið í klámsögur. Engu að síður rötuðu bækurnar í barnabókadeildir verslana.
Kínverska forlagið lét óvart þýða erótíska endursögn ævintýranna eftir japanska tvíeykið Kiryu Misao. Útgefandinn afla sér ekki útgáfuréttar og taldi að um þýðingu á frumgerð ævintýranna væri að ræða.
„Við gátum ekki fundið upprunalega útgáfu Grimms ævintýra á þýsku svo við höfðum japönsku útgáfuna til viðmiðunar og þýddum hana,“ sagði talsmaður China Media Time í samtali við dagblaðið Global Times.
Í japanska umskiptingnum er t.d. ævintýrið um Mjallhvíti orðið þannig að hún á í kynferðislegu sambandi við föður sinn og dvergana sjö. Eftir að hún deyr verður prins, sem er náriðill, ástfanginn af líki hennar.
„Það var ekki ætlast til þess að börn læsu bókina, en hún var sett í barnabókadeildir svo við innkölluðum hana,“ sagði talsmaður útgáfunnar.
Í kínversku útgáfunni voru ekki nefndir aðrir höfundar en hinir löngu látnu Grimms-bræður. Talsmaður kínverska bókaútgefandans sagði að málið væri „snúið“ þegar hann var beðinn um að staðfesta hvaða útgáfa ævintýranna var þýdd.