Þýska lögreglan rak upp stór augu þegar hún fann tveggja metra háa marijúanaplöntu við húsleit á dögunum. Stærð plöntunnar var ekki það eina sem vakti athygli lögreglumannanna því eigandinn, sem er gamall hippi, hafði komið plöntunni fyrir í jólatrésfæti og skreytt hátt og lágt með ljósaseríum. Að sögn lögreglu ætlaði hippinn að skreyta „tréð“ sitt enn frekar og leggja gjafir sínar þar undir.
Lögreglan komst á sporið eftir að hafa séð tilkynningu í blaði sem hljómaði svo: „Allt sem þú þarft er ást eða jólahátíðarhöld að hætti hippa.“ Auk plöntunnar voru 150 grömm af maríjúana gerð upptæk á heimili hippans.
Þá handtók lögreglan í Þýskalandi 21 árs gamlan karlmann sem hafði í fórum sínum heimatilbúið jóladagatal sem fyllt var kannabis í stað súkkulaðis eða annarra gjafa.