Bretar hafa tekið upp þykkjuna fyrir þau Vilhjálm Bretaprins og unnustu hans, Kate Middleton, vegna myntar, sem slegin hefur verið með myndum af þeim í tilefni af væntanlegu brúðkaupi þeirra í apríl.
Myntin fór í dreifingu á Þorláksmessu og að mati Breta eru brúðhjónin væntanlegu óþekkjanleg. Kate sé búlduleit á myndinni með poka undir augunum og Vilhjálmi svipi helst til Al Gore, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna.
Ingrid Seward, ritstjóri tímaritsins Majesty Magazine, sagði við Sky News, að það sé hlægilegt hve myndirnar af þeim á myntinni séu slæmar. Talsmaður bresku konungshallarinnar segir að það sé oft erfitt að láta myndir á myntum líkjast viðfangsefnunum.
Á hinni hlið myntarinnar er mynd af Elísabetu Englandsdrottningu en þar eru Bretar ýmsu vanir og hafa ekki gert athugasemdir við hana.
Brúðkaupsmyntin er slegin í gulli og silfri með verðgildinu 5 pund.