Brugghús á Kýpur skoðar nú lagalega stöðu sína eftir að bjór sem fyrirtækið framleiðir var sýndur í bandarískri klámmynd. Brugghúsið, KEO, er meðal annars í eigu rétttrúnaðarkirkjunnar á Kýpur.
Forsvarsmenn KEO urðu mjög undrandi þegar þeir fréttu í dag af frama framleiðslunnar í bandarískum kvikmyndaiðnaði. Að sögn forstjóra KEO, Elias Sozou, hefur verið boðað til fundar hjá framkvæmdastjórn KEO á morgun til þess að ræða stöðuna. Rétttrúnaðarkirkjan á Kýpur á 20% hlut í KEO.
Sozou segist ekki enn hafa rætt við kirkjunnar menn út af málinu en verið sé að athuga hvort hægt sé að klippa bjórinn út úr myndinni. Hann segist ekki vera búinn að sjá myndina sjálfur en honum hafi verið tjáð að svo virðist sem bjórinn sjáist á myndskeiði sem tekið er upp á grískum stað í New York.