Íslandi er borgið og kreppan afstaðin. Eða svo mætti halda miðað við yfirlýsingar sextugs nammiframleiðanda frá New Jersey í Bandaríkjunum.
Michael Dee, sem búsettur er í Branchburg, nálægt Newark í New Jersey, segir frá því á þarlendri fréttasíðu að hann hafi orðið svo fullur samúðar með Íslendingum eftir að fjármálakerfið hrundi og hér gaus risastórt eldfjall í þokkabót, að hann hafi einsett sér að bjarga fjárhagsvandræðum Íslands.
Hann hafi því skipulagt hundrað manna ferð á hokkímót hér á landi og áætli nú að hópurinn hafi eytt sem nemur um 200 þúsund dollurum hér á landi, eða sem nemur um 23 milljónum króna.
„Þetta var frekar villt,” segir hann. „Sumir af strákunum sögðu að þeir væru að bjarga Íslandi með því að kaupa drykki fyrir allar stelpurnar á börunum. Ég hjálpaði líka til,” segir Dee afar stoltur.
Dee er forstjóri nammiframleiðslu og er í framhaldsnámi, auk þess að vera mikill áhugamaður um íshokkí. Hann kallaði Íslandsferðina, innblásinn af fréttum af bankahruni og eldgosum, ,,hina miklu íslensku hokkíbjörgunaraðgerð.” (e. The Great Icelandic Hockey Bailout).
Slagorð ferðarinnar var að Ísland væri of lítið til að fara á hausinn, öfugt við það sem oft hefur verið sagt um risabanka og fyrirtæki, að þeir séu of stórir til að fara á hausinn. „Við vildum hjálpa til.”
Dee segir að hann ætli að skipuleggja aðra björgunarferð til Íslands og búist þá við því að fá tvöfalt fleira fólk með sér næst.